GADDAKYLFAN 2024
Hið íslenska glæpafélag kynnir með grunsamlega spennandi gleði og stolti:
Gaddakylfan 2024!
Það gleður okkur ósegjanlega að greina frá því að Gaddakylfan, hin ógnvekjandi og æsispennandi smásagnasamkeppni Hins íslenska glæpafélags, hefur verið endurvakin í samvinnu við Storytel á Íslandi og Iceland Noir!
Að þessu sinni er óskað eftir glæpa- og/eða spennusmásögum í lengri kantinum, eða frá 6.000 og allt að 10.000 orðum. Keppnin er sem fyrr öllum opin.
Skila skal handritum í rafrænu formi á netfangið gaddakylfan@hig.is, fyrir miðnætti að kvöldi 29. september 2024. Þaðan verða þær framsendar, ólesnar og nafnlaust, til þriggja manna dómnefndar HÍG, Iceland Noir og Storytel.
Úrslit verða svo kynnt á sérstökum viðburði á (glæpa)bókmenntahátíðinni Iceland Noir, sem haldin verður dagana 20. – 23. nóvember, þar sem þrjár bestu sögurnar og höfundar þeirra verða í sviðsljósinu.
Höfundur sögunnar sem dómnefndin metur besta hlýtur Gaddakylfuna að launum, einstakan verðlaunagrip sem hannaður er og mótaður af leirlistarkonunni Koggu, útgáfusamning við Storytel, miða á Iceland Noir og verðlaunaskjal. Höfundar sagnanna í öðru og þriðja sæti fá líka verðlaunaskjal og miða á Iceland Noir. Einnig verða verðlaunasögurnar þrjár og allar aðrar sem dómnefnd metur útgáfuhæfar gefnar út á hljóðbók hjá Storytel.
Gaddakylfan 2024 er hluti af hátíðarhöldunum Glæpafár á Íslandi, sem félagið stendur fyrir í tilefni 25 ára afmælis síns. Upplýsingar um alla viðburði Glæpafársins má finna á Facebook-síðu félagsins: https://www.facebook.com/hidislenskaglaepafelag