Ísnálin 2021
Ísnálin 2021 var afhent á Borgarbókasafninu í dag, en hún kom að þessu sinni í hlut Höllu Kjartansdóttur, fyrir þýðingu hennar á Þerapistanum eftir Helene Flood, sem Benedikt útgáfa gaf út. Umsögn dómnefdnar er erftirfarandi:
Þerapistinn fjallar um hvernig líf ungrar konu, Söru, umturnast þegar eiginmaður hennar, Thomas, hverfur á leið í veiðikofa með vinum sínum. Hún man eftir kveðjukossinum um morguninn þegar hann fór út um dyrnar. Enginn sér hann í nokkra daga, samt eru ummerki í húsinu eins og hann hafi komið heim. Er hann lífs eða liðinn? Á meðan hún reynir að takast á við hvarf eiginmannsins sinnir hún skjólstæðingum sínum sem eru flestir brotið ungt fólk, en er hún ekki á sama báti? Höfundur Þerapistans er Helene Flood og er sálfræðingur og starfar í Osló og er þetta fyrsta bók hennar. Sagan er gríðarlega spennandi. Persónusköpunin er mjög sannfærandi og hefur lesandi á tilfinningunni að þetta gæti allt eins komið fyrir hvern sem er. Hvernig myndi maður bregðast við? Þýðandinn, Halla Kjartansdóttir, hefur náð að halda hversdagslegum blæ textans án þess að misstíga sig. Textinn verður aldrei flatur og hnýtur lesandinn ekki um óþarfa snúning á orðum né tilgerð. Halla gerir þetta feiknalega vel.
Í dómnefnd sátu María Katrín Víðisdóttir (formaður) fyrir hönd Hins íslenska glæpafélags, Ingibjörg Þórisdóttir fyrir hönd Þýðingaseturs HÍ og Kristín Vilhjálmsdóttir fyrir hönd Bandalags þýðenda og túlka.
Hið íslenska glæpafélag óskar Höllu innilega til hamingju með Ísnálina og þakkar dómnefnd vel unnin störf.
Aðrir tilnefndir þýðendur voru:
Ísak Harðarson, fyrir þýðingu sína Eldum björn e. Mikael Niemi. Útgefandi: Mál og menning.
Nanna B. Þórsdóttir, Eplamaðurinn e. Hanne Mette Hancock. Útgefandi: JPV.
Nanna B. Þórsdóttir, Blekkingarleikur e. Kristina Ohlsson. Útgefandi: JPV.
Sigurður Karlsson, fyir þýðingu sína Snerting hins illa e. Max Seeck. Útgefandi: JPV