Viðtöl

Jónína Leósdóttir 

...var að senda frá sér skáldsöguna Óvelkomni maðurinn sem er þriðja bókin um Eddu, konu á eftirlaunum sem dundar sér við að leysa ráðgátur í óþökk þeirra sem vilja ekki láta leysa þær.

Við hjá Glæpafélaginu fengum að spyrja Jónínu nokkurra spurninga um ritstörfin og Óvelkomna manninn.

- Hvenær byrjaðirðu að skrifa?

Ég hef verið sískrifandi síðan ég var krakki. Byrjaði á sendibréfum, ritgerðum og smásögum. Frá árinu 2006 hef ég svo verið í fullu starfi sem rithöfundur.

- Af hverju skrifarðu?

Vegna þess að mér líður best þegar ég skrifa og illa þegar eitthvað kemur í veg fyrir að ég geti skrifað. 

- Hvað hefurðu skrifað margar glæpasögur?

Ég hef skrifað sextán bækur sem allar fjalla á einhvern hátt um mannleg samskipti. Í þremur síðustu skáldsögunum, sem allar fjalla um sömu aðalpersónu, ákvað ég að krydda efniviðinn með glæpsamlegum atvikum.

- Finnst þér erfitt að fá hugmyndir að sögum til að skrifa?

Nei, ég hef ekki enn upplifað ritstíflu, sem betur fer. 

- Hefurðu einhvern tímann hugsað þér að skrifa undir dulnefni?

Nei, en kannski hefði ég átt að gera það.

- Reynirðu að fara ótroðnar slóðir í skrifunum eða leitarðu eftir að skrifa það sem þú veist að lesendur þínir vilja sjá?

Vinnudagarnir yrðu ansi dapurlegir ef ég skrifaði um annað en mér finnst sjálfri áhugavert.

- Standa bækurnar sem sjálfstæðar sögur eða eru þær hluti af stærri sögu?

Bækurnar um hana Eddu standa algjörlega sjálfstæðar þótt sama aðalpersóna sé í þeim öllum.

- Eru bækur þínar útgefnar erlendis? Ef svo er hvar?

Eddubækurnar hafa ekki verið þýddar en aðrar bækur eftir mig hafa verið gefnar út í Þýskalandi, Danmörku og Ungverjalandi.

- Hvað gerirðu annað en að skrifa?

Lítið … enda skrifa ég mikið. Ég er í draumastarfinu og vil helst vinna alla daga.

- Hversu oft ferðu yfir söguna áður en hún er send til útgefanda?

Ég byrja hvern vinnudag á því að fara yfir síðustu kafla áður en ég held áfram með skrifin. Þannig er allur texti orðinn margyfirfarinn þegar ég lýk bókinni.

- Hver finnst þér vera besta leiðin við að auglýsa bækur sínar og sjálfan sig sem rithöfundur?

Að skrifa góðar bækur.

- Hverskonar rannsóknir gerirðu þegar þú skrifar og hversu lengi stundarðu þær áður en þú byrjar á bók?

Sögurnar gerjast í höfðinu á mér vikum saman - stundum mánuðum saman - áður en ég byrja að skrifa. Á þessu gerjunartímabili les ég mér mikið til og leita líka ráða hjá fólki með sérfræðiþekkingu á því sem ég ætla að fjalla um. Lausnir á alls kyns vandamálum í söguþræðinum birtast svo á ólíklegustu augnablikum, t.d. þegar ég ligg á bekknum hjá sjúkraþjálfaranum mínum.

- Hvernig velurðu nöfnin á persónunum í bókinni?

Það getur verið flókið. Ég reyni nefnilega að passa upp á að persónurnar eigi helst ekki samsvörun í raunveruleikanum. Þess vegna tékka ég á nöfnum á Facebook, á ja.is og líka í félagatali starfsstétta sem persónurnar eiga að tilheyra. 

- Lestu bókarýni um bækurnar þínar? Hvernig tekurðu á slæmri rýni?

Já, ég fylgist með umfjöllun. Mér finnst gagnlegt að heyra hvað öðrum finnst um bækurnar. Ég hef verið svo heppin að fá fremur jákvæðar viðtökur, ég man a.m.k. ekki eftir neinni yfirhalningu. 

- Hvað tekur það þig að meðaltali lengi að skrifa bók?

Vinnan við bækurnar skarast. Ég er alltaf með minnst tvær bækur í gangi í einu - eina á hugmyndastigi og eina sem ég er að skrifa. Í slíku ferli fæ ég svo kannski handrit þriðju bókar úr yfirlestri og þarf að einbeita mér að henni í tvær vikur. Þess vegna er erfitt að segja til um hvenær vinnan við bækurnar byrjar og endar. 

- Fyrir þá sem ekki hafa lesið bækurnar um Eddu, hver er Edda og hvernig varð hún til?

Edda er eldhress og forvitin kona á eftirlaunum sem flækist inn í alls kyns mál og leikur sér að því að leysa ráðgátur - oft við litla hrifningu þeirra sem hafa eitthvað að fela. Í bókum sem ég skrifaði fyrir unglinga voru stundum ömmur sem minntu á Eddu en mig langaði að prófa að hafa slíka persónu í forgrunni í bókum fyrir fullorðna.

- Óvelkomni maðurinn. Án þess að láta of mikið uppi, um hvað fjallar bókin?

Í þessari bók fellur maður niður af svölum í blokkinni sem Edda býr í við Birkimel. Sömu nótt kveikir grandvar snyrtifræðingur í íbúðinni sinni við Vesturgötu - kona sem reynist vera mamma Viktors, tengdasonar Eddu. Bæði þessi mál vekja áhuga Eddu.

- Verða fleiri bækur um Eddu?

Já, ég geri fastlega ráð fyrir því.

Við þökkum Jónínu kærlega fyrir skemmtilegt og fróðlegt viðtal og óskum henni til hamingju með nýju bókina, Óvelkomni maðurinn.