Iceland Noir

Ekki er ráð nema í tíma sé tekið 

Unnendur glæpasagna ættu að taka frá dagana 19.-21. nóvember næstkomandi því þá fer glæpasagnahátíðin Iceland Noir fram í Reykjavík. Auk íslenskra glæpasagnahöfunda er von á fjölda þekktra erlendra höfunda sem flestir ættu að kannast við. Meðal þeirra erlendu gesta sem koma fram á hátíðinni eru: Ian Rankin frá Skotlandi, Sara Blædel frá Danmörku, Anthony Horowitz og Ann Cleeves frá Bretlandi, AJ Finn frá Ameríku, Emilie Schepp frá Svíþjóð, Shari Lapena frá Kanada og Liz Nugent frá Írlandi. Gæti nánast verið samkunda á vegum Sameinuðu þjóðanna – en bara miklu, miklu skemmtilegri.  

Til að kóróna herlegheitin heldur Iceland Noir glæpadiskó laugardagskvöldið 20. nóv. þar sem lesendur, höfundar og skipuleggjendur skemmta sér eins og frábæru fólki er einu lagið. DJ þetta kvöld verður Dóra Júlía (það á raunar eftir að láta hana vita svo ekki opna með því ef þið hittið hana á förnum vegi og viljið spjalla). Samskonar skemmtun var haldin á síðust hátíð fyrir tveimur árum í Iðnó og sló í gegn. Fyrir þá sem eru áhyggjufullir yfir félagsskapnum þá var enginn drepinn það kvöld og skipuleggjendur eiga ekki heldur von á morði í ár.   

Þetta verður eitthvað börnin góð. Takið þessa daga frá. Í alvöru.